top of page
Writer's pictureElín Berglind Skúladóttir

Akrílmálun!


Fyrir byrjendur í málun og alveg eins lengra komna geta akríllitir verið góð lausn þegar kemur að málun á striga. Mikilvægt er að huga að grunnatriðum sem stuðla að góðri endingu málverksins. Akrílmálning er plastmálning (Polymer) og hún þarf að ná góðri bindingu við strigann til að endast á honum. Oft er talað um það að tóna strigann áður en maður málar á hann og þá blanda akrílmálninguna með vatni til að fá góðan grunnlit fyrir fyrsta lagið í málverkinu sem er hálfgegnsær. Ég mæli með því að nota gæða málningu í stað ódýrrar, t.d. þessa hér sem er á myndinni frá Winsor og Newton


Það er gott að huga að því að ef maður blandar vatni út í málninguna þarf maður að passa að blanda aldrei meira en 30% af vatni út í á móti málningunni af því að akríllinn hleðst upp á hvorn annan til að festast við strigann og festa lögin af málningu saman. Ef maður setur meira af vatni eru meiri líkur á því að málningin sem maður hleður ofan á þetta grunnlag festist ekki við strigann sjálfan og detti af með tímanum. Það er líka góð lausn að blanda Acrylic medium eða Gesso út í í staðinn fyrir vatnið til að þynna fyrsta lagið og þá helst það betur við strigann.


Nú er ég að tala um striga sem búið er að grunna og kemur tilbúinn til að mála á, það eru töluvert flóknari skref sem þarf að taka til að undirbúa striga frá grunni sem ég fer ekki nánar út í hér en hægt er að leita sér upplýsinga um t.d. hér: How to Prepare a Canvas Using Gesso og hér Canvas Priming Lesson


Málunin

Hér fyrir neðan eru skrefin sem þarf að taka við að mála málverk, auðvitað er engin ein leið rétt eða önnur röng og allt er þetta spurning um í hvaða tilgangi sé verið að gera verkið og ekkert að því að gera tilraunir. Ef vel á að endast er gott að pæla í lögunum á málverkinu.


  1. Grunna málverkið með þunnu lagi af akrílmálningu með t.d. Gesso eða vatni (muna ekki meira en 30%).

  2. Mála þunnar línur af útlínum þess sem málverkið ætti að innhalda eða teikna með kolum/blýanti undir grunnlagið.

  3. Byggja upp lögin og gott að byrja í bakgrunninum (t.d. efsta hlutanum á striganum) og því sem er aftast í málverkinu, mála næst miðrýmið og enda á forgrunninum. Mála gróft litina eins og maður vill sjá þá fyrst og bæta svo við fleiri litum til að fá líf í myndina, huga að ljósi og skugga.

  4. Enda á smáatriðum, hvort sem maður notar lítinn pensil eða stóran er alltaf gott að enda á smáatriðum sem gera málverkið einstakt.


Litirnir

Þegar verið er að mála er gott að hafa í huga litahringinn, hvernig litir spila saman og hvað litafræðin segir okkur að virki vel. Hér er padlet sem ég setti saman með litahringnum


Myndefnið

Myndefnið getur svo verið mismunandi og alltaf gaman að leyfa hugmyndafluginu að ráða för og ég mæli með því að skissa upp nokkrar teikningar á blað áður en maður byrjar að mála. Í málun er teikningin sterkur eiginleiki og að vera óhræddur við að prufa en huga einnig að myndbyggingu. Sjá mynd hér neðar.

Listamaðurinn sem gerir málverkið hefur alltaf ákvörðunarvaldið í því hvernig og hvað er sett á myndina en ýmislegt er hægt að nota til þess að auðvelda ferlið og undirbúa sig vel, því þá eru minni líkur á því að maður skemmi strigann á nokkurn hátt með blýantsteikningu eða of mörgum lögum af málningu í grunnteikninguna.

Það sem mér finnst skemmtilegast að mála eru landslagsmyndir (þá helst fjöll), gæludýramyndir og portrett. Þar sem sagan sýnir okkur þróun hjá íslenskum og erlendum myndlistarmönnum á landslagi og í portrettmálun er það við hæfi að hafa smá kynningu á þessum aðferðum. Hér fyrir neðan er smá kynning íslenskrar fjallamálunar frá Ásgrími Jónssyni um aldamótin 1900 til nýrri málverka.





Hér er góð kynning sem ég hef notað í gegnum árin fyrir sjálfsmyndir nemenda í 4. bekk. Þar koma til sögunnnar nokkrir frægir erlendir og íslenskir listamenn.




Gæludýrin hafa verið svolítið vinsæl í gegnum aldirnar, þau fá a.m.k. oft að fylgja með þegar verið er að mála eigendurna hjá hinum ýmsu listamönnum fortíðarinnar og nútíðar.

Hér fyrir neðan eru nokkrir listamenn með gæludýramyndir.


1. David Hockney og Dachshundarnir hans.



2. Franz Marc - Hundur liggjandi í snjónum (1911).





3. Andy Warhol - Archie (1976).


55 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page