top of page

Sjálfsmyndir

Writer: Elín Berglind SkúladóttirElín Berglind Skúladóttir

Möguleiki á að vinna sjálfsmyndir með börnum er óendanlegur. Flestir árgangar gerðu hjá mér sjálfsmyndir í vetur og voru þær allar á mismunandi vegu. Mér finnst það líka ágætisleið til að fá börn til að efla sína sjálfsmynd með því að hafa sjálfan sig sem myndefni. Einnig finnst mér mikilvægt fyrir mig sem listgreinakennara að fara nýjar leiðir reglulega og finna fjölbreyttar og áhugaverðar leiðir til túlkunar á sama viðfangsefninu.


 

1. bekkur fékk kynningu á mismunandi listmiðlum, auglýsingum og svo gerðu nemendur verkefni í kjölfarið. Nemendur fengu útprentaða mynd af þeim frá fyrsta skóladeginum og klipptu út, límdu á annað blað og teiknuðu hendur, fætur og búk og klipptu út. Sem bakgrunn kenndi ég þeim að búa til landslagsmynd með sjónlínu, fjöll ofan við sjónlínuna og hvarfpunkt með fjarvíddarlínum sem enda allar í hvarfpunktinum.

Nemendur teiknuðu línurnar með tússlit og máluðu svo myndina með vatnslitum.

Límdu svo sjálfsmyndina á landslagsmyndina og þrykktu á með allskonar stimplum og þekjumálningu. Litaval, teikningin og þrykk var algjörlega sköpun nemandans en ég setti línurnar með sjónlínu og hvarfpunkti og útskýrði vel hvað sjónlína og hvað hvarfpunktur væri.

Lína sem skilur á milli himins og hafs og að nemendur væru gætu séð vel hvar línan er ef það sér beina línu sjónum þar sem himinn er ofan við og sjórinn neðan við. Fjöllin í fjarska eru ofan við sjónlínuna og stundum er eitthvað framan við sjónlínuna sem gerir það að verkum að hún er ekki eins bein lína eins og sú sem myndast við.



2. bekkur gerði hliðarsjálfsmynd. Þá notuðum við ipada til að ná prófílljósmynd af nemendum, sú mynd var prentuð út og nemendur drógu svo upp á blöð með ljósaborðum og máluðu með vatnslitum.

Markmið með þessu verkefni var þjálfun í fínhreyfingum við að draga upp á ljósaborði, notkun á vatnslitapenslum og vandvirkni.




3. bekkur vann að teikningu á andliti í réttum hlutföllum og bakgrunni í teikningu. Notast var við leiðbeinandi teikningu, þar sem kennari sýnir uppi á töflu og nemendur gera á sitt blað og svo er þjálfun í að lita með trélitum og nota mismunandi andlitsliti og nemendur hvattir til að gera skugga þar sem við á, t.d. nálægt hári, við nef, varir, höku o.s.frv.



4. bekkur fékk kynningu og umræður á nokkrum ólíkum listamönnum sem hafa málað portrettmálverk af sjálfu sér, m.a. var Vincent Van Gogh, Mary Cassat, Pablo Picasso, Frida Kahlo, Jóhannes S. Kjarval og Erró. Einnig rætt um liti og hvaða áhrif þeir hafa á mynd, heitir og kaldir og tilfinning. Svo var unnið með svipaða þætti og 3. bekkur, þ.e. leiðbeinandi teikning og andlit í réttum hlutföllum á A3 blað. En nemendur notuðu þekjumálningu og vaxliti (Neocolor 1) til að gera áferð og punktinn yfir i-ið. Markmið með þessu verkefni var að nemendur lærðu að blanda mismunandi andlitsliti og reyndu að miða við sinn húðlit og það var heilmikill lærdómur í litablöndun. Áhersla lögð á góða notkun á pensli og að slétta vel úr málningunni þegar verið er að mála, draga að sér eða gera fram og til baka.


5. bekkur vann Lego-sjálfsmyndir. Þá teiknuðu nemendur sjálfan sig upp sem Lego-karl og teiknuðu svo bakgrunn, lituðu með trélitum og fóru ofan í með svörtum útlínupenna. Þá var verið að þjálfa þætti eins og teikningu eftir leiðbeiningum og útfærslu eigin hugmynda, lita stærri fleti með trélitum og eins og alltaf að þjálfa vandvirkni. Nemendur fengu leiðbeiningar í gegnum Padlet, lítil teiknimynbönd sem sýndu auðvelda leið til að teikna legokarl og hvernig hægt er að nota liti til að ná skugga eða þrívídd í teikninguna með blöndun í trélitum.

 
 
 

Comments


3548942915

  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2024 Elín Berglind Skúladóttir.

Búið til í gegnum Wix.com

bottom of page