top of page
VR.jpg

Sýndarveruleiki í kennslu

Innleiðing sýndarveruleika í kennslu - unnin út frá starfenda- og viðtalsrannsókn

sem var lokaverkefni mitt í meistaranámi (M.Ed) við fagreinadeild í kennslu list- og verkgreina

við Menntavísindasvið Háskóla Íslands vorið 2024.

Leiðbeinendur voru Björgvin Ívar Guðbrandsson aðjúnkt og

Hanna Ólafsdóttir, lektor í listgreinakennslu

Verkefnið var unnið við Lundarskóla á Akureyri þar sem ég starfa sem sjónlistakennari og hlaut styrk til rannsóknarstarfa í sýndarveruleika í kennslu frá Barna- og menntamálaráðuneytinu

Innleiðing á sýndarveruleika

Við innleiðingu á sýndarveruleika í skóla er gott að hafa nokkur atriði í huga. 

- Hafa góðan stuðning stjórnenda skólans, t.d. fjármagn til kaupa á tækjum og forritum, tíma fyrir kynningu og starfsþróun.

- Setja saman innleiðingarteymi 2-3 einstaklingar, fer eftir stærð skóla.

- Kynning á tækjum, námsefni og forritum sem gætu hentað með VR – einfalt til að byrja með.

- Hafa möguleika að fá lánuð tæki heim til að læra á þau og prófa.

- Hafa kennsluáætlun/markmið með notkuninni.

- Nauðsynlegt er að kynna sér viðvaranir framleiðanda varðandi notkun barna á tækjunum sem má sjá hér ásamt hlekkjum á frekari upplýsingar: Meta Quest Safety guidelines

Sýndarveruleiki - Tækin

Í sýndarveruleika hef ég notað Meta Quest 2 sýndarveruleikagleraugu með nemendum.

Tækin eru þráðlaus en tengd við þráðlaust net (wifi) og hægt að tengja við Meta app í snjalltæki/Ipad sem getur stjórnað því hvað er inni í hverjum gleraugum og hægt að sjá hvað er að gerast í gleraugunum með snjalltækinu/Ipadinum.

Þetta gefur tækifæri á að skipta nemendahópum upp í hópa og leyfa nokkrum að vinna að verkefnum í sýndarveruleika í einu á meðan aðrir vinna að hefðbundnum verkefnum eða fylgjast með því sem er að gerast í tækinu í gegnum Ipad/snjalltæki. 

Gott er að fara eftir leiðbeiningum Meta þegar setja á upp nýtt tæki sem er á síðu Meta - Hlekkur

Sýndarveruleiki - forritin

Forritin sem mest hefur verið unnið með í tengslum við rannsóknina eru Wander, Tilt brush og Multi brush. Gerði rannsakandi lista þar sem kostir og gallar voru settir upp ásamt almennri umfjöllun um hvert forrit og má finna hér neðar. Meðal þeirra forrita voru t.d.:

First steps sem er forrit sem hjálpar nemendum að læra á fjarstýringuna með gleraugunum og hvernig sýndarveruleiki virkar;

Cubism sem er forrit þar sem nemendur vinna með rýmisgreind og virkar þannig að ákveðnum kubbum er raðað inn í þrívítt mót og þeir verða að smella saman til að geta haldið áfram;

Now is the time er forrit sem fjallar um Martin Luther King og sögulegt samhengi varðandi réttindabaráttu þeldökkra Bandaríkjunum; 

Anne Frank House er upplifun af húsi Anne Frank frá seinni heimstyrjöldinni;

Noda er hugarkortaapp sem gefur möguleika á að vinna með hugarkort (e. mindmap) í þrívídd og setja inn myndir og vinna fleiri saman að sama hugarkorti. Fleiri forrit voru einnig nýtt einungis til skemmtunar og gamans en gefa góða möguleika á að þjálfa hreyfingu, viðbragðstíma og læra á að vinna með sýndarveruleika.

Wander tengist leitarforritinu Google maps þar sem hægt er að fara hvert sem er í heiminum þar sem Google maps hefur tekið upp og sjá hvernig er umhorfs þar. Hægt er að velja götuheiti eða skrifa nafn byggingar og þá flytur forritið nemanda á þann stað. Slíkt getur verið spennandi í samhengi við listasögu og þá sérstaklega í kennslu á byggingarstílum þar sem hægt er að skoða byggingarnar frá mismunandi sjónarhornum og töluvert dýpri reynsla og annað að skoða byggingar í þrívíddargleraugum en að skoða myndir af þeim á skjá. En forritið Wander gefur einnig möguleika á að fara inn í einhver söfn til að skoða listaverk og er kominn góður listi yfir söfn sem hafa þennan möguleika. Í því samhengi er Spánn frekar framarlega í tækninni og býður upp á innlit í mörg söfn í gegnum Google maps og því hægt að fara þangað í sýndarveruleikanum. Verkefni þar sem Wander er notað í sjónlistum hjá 4. bekk sem tengist rómönskum og gotneskum byggingarstíl má sjá hér. 

Tilt brush reyndist vera forrit sem gefur mikla möguleika á sköpun þar sem hægt er að búa til sýndarheim með teikningu inn í þrívíðan heiminn ásamt forritinu Gravity sketch, sem er einnig þrívíddarforrit. Eftir skoðun og rannsóknarvinnu er hægt að vinna að sömu teikningu innan beggja forrita, það er, að flytja á milli forrita en þar sem ekki eru sömu stillingar geta einhverjir eiginleikar dottið út á milli forrita. Tilt brush forritið var því meira þróað og mikið af efni til á netinu því til stuðnings, kennsluleiðbeiningar og annað frá bæði sérfræðingum og áhugafólki. Því ákvað rannsakandi að nota það forrit fyrir verkefnavinnuna.

Painting VR er farið inn í skemmu sem hefur aðstöðu fyrir listamann, með striga, málningu og ýmsum verkfærum þar sem er hægt að blanda alla liti, ýmsa áferð með pensli, blýanti, penna og fleiri möguleikum. Í því forriti er hægt að vista myndirnar sem málaðar eru og hengja þær upp í skemmunni, sem er stór salur eða skemma með veggjapláss til að hengja upp.

Kingspray graffiti VR er leikur þar sem hægt er að búa til graffiti listaverk. Sniðugt í tengslum við stafateikningu í framhaldi af 3D teikningu á stöfum.

Þegar leið á rannsóknina komst höfundur að því að Tilt brush er forrit þar sem nemendur geta eingöngu unnið einir í. Það býður ekki upp á samvinnu. Hins vegar höfðu framleiðendur Tilt brush einnig þróað forrit sem býður upp á samvinnu sem virkar nákvæmlega eins og Tilt brush nema það býður upp á að búa til herbergi þar sem aðrir geta komið inn í og kallast það forrit Multi brush. 

Star Chart er forrit þar sem hægt er að ferðast, skoða stjörnur og plánetur í himingeimnum og sjá stjörnumerki út frá staðsetningu stjarnanna.

Titans of Space er annað forrit þar sem hægt er að ferðast um sólkerfið og læra um stjörnur og plánetur, allt með enskum texta og tali.

Apollo 11 er upplifun af ferð til tunglsins þar sem hægt er að upplifa umhverfið sem geimfari og fræðst er um sögu geimferða.

Ecosphere er forrit þar sem hægt er að skoða nokkra hluta heimsins og fræðast um menningu og þjóðir. Ítarleg myndbönd og upplýsingar sem hægt er að hlaða niður eru inni í appinu. 

Einnig skoðaði rannsakandi lítillega forrit sem aðrir kennarar gætu nýtt sér sem heita Ocean Rift, Moss og Human Anatomy VR.

Dalvíkurskóli tók einnig þátt í Erasmus+ verkefnið þar sem verið var að móta námsefni fyrir tölvuleiki og sýndarveruleika og má sjá á hlekk hér fyrir neðan. 

Kynning á sýndarveruleika

Við kynningu á sýndarveruleika er gott að hafa kynningu á tækjunum, hvernig þau virka og sýna hvernig farið er inn í forritin í tækjunum. 

Síðan er gott að sýna eitthvað ákveðið forrit og leyfa þátttakendum að prófa forritið - varpa upp á skjá það sem gerist inni í einu tækinu. Hægt er að kynna nokkur mismunandi forrit í einu og hafa stöðvar með mismunandi forritum að prufa. 

Besta leiðin til að læra á Quest gleraugun er að fá þau lánuð og prófa sjálfur eftir að hafa fengið kynningu. 

Þá er hægt að sjá möguleikana í tækinu með eigin hendi.

Hér fyrir neðan koma inn kynningarglærur sem henta til kynningar á Quest gleraugunum.

Rannsóknir á sýndarveruleika

Notkun sýndarveruleika við rannsóknir hefur verið í ýmsum tilgangi og erlendar rannsóknir á notkun sýndarveruleika spanna breitt svið. Í tengslum við kennslu og menntun eru erlendar rannsóknir á sýndarveruleika einnig fjölbreyttar. Síðustu ár hefur notkun á tækninni í listkennslu verið rannsökuð að einhverju leyti. Vísbendingar eru þó um að frekari þörf er á rannsóknum á efninu. Þar má nefna að nokkrar nýlegar rannsóknir sem sýna þörf fyrir að bæta sýndarveruleika í kennslu listhönnunar og listmenntunar. Sjá viðhengi hér fyrir neðan:

Verkefni í sýndarveruleika

Verkefni í sýndarveruleika eru mismunandi eftir því hvað er verið að vinna að.

Hér að neðan eru hugmyndir að verkefnum til að vinna að í Tilt brush með tilliti til ýmissa nálgana, út frá sögugerð, persónusköpun, læsisnámi, stærðfræði o.fl.

Einnig eru hugmyndir að notkun mismunandi forrita í tengslum við þemaverkefni eða í tengslum við ákveðnar námsgreinar. Verkefni í valgrein í sjónlistum þar sem unnið er með sköpun á sögusviði í sýndarveruleika, sköpun sögupersóna með stafrænni teikningu og upptökur í green screen.

Verkefnavinna í sjónlistum þar sem sýndarveruleiki var notaður í rannsókninni voru nokkur og hér er fyrir neðan er listi yfir þau. Verkefnin eru þó enn í þróun og vinnslu og verða sett fleiri verkefni hér inn með tímanum. Meðal annars eru væntanleg verkefni þar sem þrívíddarteikning í sýndarveruleika og þrívíddarprentun vinna saman.  

Námsefni og verkefni fyrir bekki og valgrein:

  • 4. bekkur - Rómanskur og gotneskur byggingarstíll - forritið Wander notað til að sýna nemendum mismunandi byggingar í byggingarstílunum. 

  • 5. bekkur - teikning í þrívídd 3D - geómetrísk form - forritið Tilt brush notað til að leyfa nemendum að teikna form í þrívídd. 

  • 6. bekkur - Teikning - samvinna Tilt brush - forritið Multi brush notað til að leyfa nemendum að vinna saman að teikningu inni í forritinu. 

  • 7. bekkur - Teikning á manneskju í réttum hlutföllum og fullri stærð í sýndarveruleika - forritið Multi brush notað fyrir samvinnuteikningu, tveir til þrír saman.

  • 10. bekkur - Teikning - læra á tækin og samvinnuteikning í Multi brush.

  • Valgrein á unglingastigi - Teikning á rými í sýndarveruleika - Tilt brush eða Multi brush notað, fer eftir hvort um einstaklingsvinnu eða samvinnu er að ræða - verkefni notað sem grunnur fyrir frekari vinnu með grænskjá og stafræna teikningu. Kennsluáætlun og námsefni útbúið með verkefni. 

Dæmi um verkefni nemenda

Hér fyrir neðan eru skjáskot úr Tilt brush forritinu af verkefnum nemenda ásamt verkefnum úr valgreinahóp þar sem green screen var notað. Hægt er að vista verk nemenda inni á google aðgangi skólans eða nemandans. 

bottom of page