Eitt af verkefnum nemenda 5. bekkjar er Mona Lisa. Í því verkefni fræði ég nemendur um endurreisnartímabilið og fjalla sérstaklega um Leonardo Da Vinci. Þá segi ég þeim sérstaka sögu Monu Lisu, La Gioconda eins og verkið heitir á ítölsku, af hverju það heitir það. Hvernig það atvikaðist að verkið fór frá Ítalíu og endaði í eigu frakkakonungs og hékk uppi í svefnherbergi hans í góðan tíma og varð eitt af stofnverkum Louvre-safnsins í París. Frá listtæknibragði hans súmató sem hann þróaði og sést vel í Monu Lisu og þýðir í gufu eða móðu. Ég sýni nemendum verkið og segi að ef þau ganga um kennslustofuna þá séu sumir sem upplifa að Mona Lisa sé að horfa á þá sama hvar þeir standa í stofunni, sem gerir málverkið dularfyllra. Ég segi nemendum einnig frá því hvernig aðrir listamenn hafa haft mikinn áhuga á að skoða verkið og læra af því, fá innblástur af því og tala ég um hvernig verkið hefur verið stælt í gegnum tíðina. Ég segi líka frá sögu þegar verkinu var stolið árið 1911, hvað það tók langan tíma að uppgötva að það var horfið. Nemendur sjá mynd af þeim sem stal verkinu og við ræðum um hvaða mögulegu afleiðingar það hefði í dag ef þessu verki væri stolið og berum saman við árið 1913 þegar hann var handtekinn. Og yfirleitt nefna nemendur að fyrra bragði að einhverju hafi verið kastað í málverkið eins og t.d. köku og súpu og ræðum við í hvaða tilgangi fólk geri slíkt.
Í framhaldinu fá nemendur að skoða verk sem aðrir listamenn hafa gert til að stæla Monu Lisu og vinna svo verkefni. Nemendur teikna og mála sína eigin útgáfu af Monu Lisu og hafa komið margar skemmtilegar útgáfur sem eru stórkostlega sniðugar. Mjög skemmtilegt er að setja myndirnar upp jafnóðum og þær klárast á ákveðinn stað og leyfa að hanga allt skólaárið.
Þar sem við vinnum í lotum í list- og verkgreinum bætast við Monu Lisur allt skólaárið í allskonar útgáfum. Þetta er mjög vinsælt verkefni og mikil tilhlökkun hjá krökkunum að gera þessar myndir þar sem þau hafa séð aðra krakka mála þessar myndir árinu áður eða eins og hjá mér hef ég unnið með þetta verkefni í nokkur ár og komnar fjöldinn allur af Monu Lisum sem hafa farið heim úr myndlist. Umræður sem myndast á milli nemenda eru líka rosalega skemmtilegar þegar þeir skoða myndirnar.
Hæfniviðmið úr aðalnámskrá grunnskóla (2013) sem verið er að vinna að eru meðal annars að nemendur:
geti notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,
nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,
gert grein fyrir og fjallað um tilteknar stefnur myndlistar og sett þau í það menningarlega samhengi sem þau voru sköpuð
beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni,
gert tilraunir við gerð margskonar listaverka
Önnur markmið eru t.d. að nemendur þjálfi sig í umræðum um listaverk, þjálfi litablöndun og málun og geri jafningjamat í málun. Í jafningjamati hvet ég nemendur til að spyrja hvort annað þegar verkinu er lokið hvort að það sé eitthvað sem þeir eigi eftir að gera eða þurfi að gera betur. Þetta er liður í leiðsagnarnámi þar sem ég læt nemendur vinna sem námsfélagar að jafningjamati sem hefur hjálpað til við að gera nemendur hæfari í að meta sig sjálfir, í að meta hvorn annan og að vanda vinnubrögð.
Hugtök sem unnið er með eru meðal annars portrett, myndbygging, málun, bakgrunnur. Ég vinn með málverkið og að mála allt blaðið þar sem ekki sést neins staðar í hvítt blaðið undir. Nýta hárin á penslinum til að slétta úr málningunni með því að draga að sér eða mála fram og tilbaka.
Kynning fyrir nemendur
Dæmi um verk nemenda má sjá hér fyrir neðan
Comments