top of page

Samstarf við listasafn

Á síðasta skólaári vann ég að þróunarverkefni ásamt fræðslufulltrúa Listasafnsins á Akureyri, Heiðu Björk Vilhjálmsdóttur. Við unnum saman að verkefni á námskeiðinu Lista- og hönnunarsaga, söfn og menntun, við Háskóla Íslands og fórum af stað með það á þessu skólaári 2023-2024. Þetta verður áframhaldandi samstarf með 5. bekk og verður breytilegt eftir sýningum, samstarfi við listamenn og verkefnavinnu nemenda.

Við unnum að því að vinna svokallað fyrirmyndarverkefni sem gefur samstarfi safns og skóla dýpri og merkingarbærri reynslu þar sem nemendur fá að upplifa margar hliðar safnsins.

Samstarfið var yfir heilt skólaár og endaði á sýningu á safninu á Barnamenningarhátíð.



Heimsóknir og verkefni

Fyrsta heimsókn fór fram í upphafi skólaárs, þá kemur safnkennari í heimsókn í skólann, kynnir sjálfan sig, starfsemi safnsins og fór yfir samstarf vetrarins. Það er mikilvægt að nemendur og safnkennari kynnist í upphafi verkefnisins og fari yfir samstarfið framundan, skipulag þess og markmið.

Í heimsókninni ræðir safnkennari um söfn almennt, á samtal við nemendur um þekkingu þeirra á söfnum og hvaða hugmyndir þau hafa um starfsemi þeirra. Hvað söfn þekkja þau? Hvaða söfn hafa þau heimsótt? Hvað gera þau í safnaheimsóknum? Hvað vilja þau gera í safnaheimsóknum? Safnkennari stýrir umræðum um ólíkar tegundir safna; listasöfn, minjasöfn og náttúruminjasöfn. Fjallað verður um hlutverk safna og tilgang þeirra í samfélaginu, til hvers eru söfn og fyrir hverja eru þau? Hér verður gengið út frá hlutverki safna sem fram kemur í safnalögum, þ.e. að söfn eigi að safna, skrá, rannsaka, varðveita og miðla (Þingskjal nr. 141/2011)

Sérstök áhersla verður lögð á umfjöllun um listasöfn og þá myndlist sem þau safna og sýna. Safnkennari segir einnig frá Listasafninu á Akureyri sérstaklega, fer stuttlega yfir sögu og þróun safnsins og kynnir starfsemina, bæði innra og ytra starf, talar um ólík hlutverk starfsfólks, húsakynni safnsins og sýningar.

Þessa umræðu má tengja við heimsókn nemenda í safnið þar sem þau fá að kynnast starfinu á bakvið tjöldin. Jafnframt væri áhugavert að ræða við nemendur um hvaða hugmyndir þau hafa um þjónustu safnsins, hvað vilja þau sjá safnið bjóða upp á?


Í annarri heimsókn komu nemendur, ásamt kennara, í tveimur hópum á Listasafnið. Miðað var við að heimsóknin taki um það bil 50 mínútur. Safnkennari tók á móti hópnum og byrjaði á að segja frá sýningunni Afmæli ásamt því að spjalla stuttlega við nemendur um valin verk á sýningunni. Því næst sagði listamaðurinn Þuríður Helga Kristjánsdóttir frá sínum verkum á sýningunni, þar fengu nemendur tækifæri til að tala við listamanninn sjálfan um verkið og spyrja spurninga. Í lok heimsóknar fóru nemendur í leik sem unnin er í tengslum við sýninguna. Í leiknum geta nemendur unnið saman í litlum hópum eða hvert og eitt, það fer eftir stærð hópsins. Leikurinn felst í því að nemendur fá að ganga sjálf um sýningarsalinn og leysa nokkur verkefni. Leikurinn er settur þannig upp að auðvelt er að aðlaga hann að hvaða sýningu sem er og markmiðið er að nemendur geti dreift sér um salinn og leyst verkefnin í samtali við hvort annað. Í þessari heimsókn voru nemendur með iPad frá skólanum þar sem þeir tóku myndir af ákveðnum atriðum sem þeir gátu tengt við. Þessar ljósmyndir af verkum á sýningunni voru síðan notaðar til þess að vinna hlaðborð af myndum af sýningunni þar sem nemendur gátu skoðað í tengslum við verkefnavinnu hjá kennara. En einnig væri hægt að útfæra verkefnið á annan hátt og upphaflega ætluðum við að hafa verkefnið á þá leið að í verkefninu væru nemendur til dæmis beðnir um að:

 

o   Finna ákveðin form í þeim verkum sem þau skoða.

o   Lýsa einu verki sýningarinnar í þremur orðum.

o   Finna verk sem þau heillast af.

o   Skrifa stutta sögu út frá einu verki.

o   Skissa upp hluta af verki.

o   Finna verk sem unnin eru með ólíkum aðferðum, t.d. málverk, ljósmynd, teikningu, textílverk, skúlptúr o.s.frv.

o   Finna verk með áhugaverðan titil.

 

Í þriðju heimsókn komu nemendur aftur í heimsókn á Listasafnið og í þetta sinn í fjórum minni hópum. Safnkennari fjallaði um sýninguna Einfaldlega einlægt og studdist við aðferðir sem tengjast myndlæsi og leiðsagnarnámi í umfjöllun sinni. Lögð verður áhersla á að hvetja nemendur til að taka þátt og vera virk í umræðum, spyrja spurninga, skiptast á skoðunum og hugleiða verkin á gagnrýninn hátt. Það hjálpar nemendum að tengjast list í gegnum samtal, ræða málin og mynda persónuleg tengsl við það sem verið er að skoða. Fyrri þekking nemenda skiptir máli og þau setja hluti í samhengi við fyrri þekkingu. Það er því mikilvægt fyrir safnkennarann að hlusta vel, nemendur mega upplifa verkin eins og þeim sýnist, það eru engin rétt eða röng svör. Safnkennari þarf einnig að vera hvetjandi og opinn fyrir ólíkum túlkunum en það er auðvitað alls engin skylda fyrir nemendur að tjá sig. 

Þá fengu nemendur einnig að kynnast innra starfi safnsins í þriðju heimsókninni. Safnkennari leiddi nemendur um þau rými safnsins sem ekki eru aðgengileg almennum gestum, eins og varðveislurými, geymslur og skrifstofur. Þannig kynnast nemendur allri byggingunni og þeirri starfsemi sem þar fer fram. Ennfremur verður lögð áhersla á að heimsóknin sé skipulögð á tíma sem verið er að setja upp nýjar sýningar í safninu. Þá fá nemendur tækifæri til að kynnast sýningargerð nánar og í hverju hún felst, velta fyrir sér hvað það er sem þarf að huga að áður en sýning opnar og hvernig ferlið er. Einnig má velta upp spurningum um hvernig sýningar nemendur vilja sjá í söfnum, hvernig  hugað er að börnum við gerð sýninga almennt og hvernig sjónarhorn þeirra er ólíkt fullorðinna.


Í fjórðu heimsókn á safnið fóru nemendur á Listasmiðju hjá Þuríði, listamanninum sem nemendur hittu í annarri heimsókn þar sem þeir sáu sýninguna Afmæli. Þar unnu nemendur klippimyndaverk hjá henni sem þeir unnu með orðið tilhlökkun sem þema. "Hver er mín tilhlökkun?" Nemendur fengu léreftsbút og allskyns tímarit, garn, málningarpenna og fleira sem þeir gátu unnið klippimynd út frá og saumað út í hana ef þeir vildu.


Lokahnykkur í samstarfinu var fimmta heimsóknin þar sem nemendum var boðið á opnun sýningar á afrakstri vetrarins, þar sem safnstjóri, fræðslufulltrúi safnsins og Þuríður Helga Kristjánsdóttir tóku vel á móti þeim. Sýning á þeim verkum sem nemendur unnu að yfir veturinn var sett upp í safnfræðslurými safnsins sem jafnframt er opið öllum gestum. Sýningin stóð yfir í aprílmánuði og safnkennari útbjó sérstaka boðsmiða sem nemendur gátu notað til að bjóða aðstandendum ókeypis inn á safnið á meðan sýningu stendur. Þannig fengu nemendur tækifæri til að taka virkan þátt í menningarlífi bæjarins, sýna fólkinu sínu það sem þau hafa unnið að yfir veturinn og láta ljós sitt skína á eigin sýningu í Listasafninu. Opnunin var hluti af Barnamenningarhátíð á Akureyri sem fram fer í apríl ár hvert og hlaut verkefnið styrk frá hátíðinni.


Mikilvægt var að leggja áherslu á að upplifun nemendanna af safnaheimsóknunum sé jákvæð og ánægjuleg. Það ýtti meðal annars undir að þau vilji koma með fjölskyldu sinni í safnið og eigi jafnvel frumkvæði að því og hafi áhuga á að deila jákvæðu reynslu sinni og þekkingu með fólkinu sínu. Á söfnum fer fram óhefðbundinn lærdómur og þar af leiðandi er oft hægt að leyfa sér meira frelsi en í kennslustofunni og það gefur tækifæri til nýrrar nálgunar. Eins geta safnaheimsóknir virkjað og þjálfað nemendur í gagnrýnni og skapandi hugsun sem nýtist þeim bæði innan og utan safnsins.


Verkefnavinnan hjá sjónlistakennara var hugsuð í þremur mismunandi nálgunum, þrívíða mótun með pappamassa, teikningu og málun og stafræna sköpun með stafrænni teikningu.


Pappamassaverkefnið er hugsað í tengslum við sýninguna Afmæli þar sem nemendur móta sitt listaverk út frá innblæstri af sýningunni og hugmyndavinnu sinni og þemanu Afmæli. Höfðu þá nemendur aðgang að Padlet þar sem á voru ljósmyndir þeirra af sýningunni. Til leiðbeiningar fyrir nemendur er verkefnavinna sett niður ásamt leiðbeiningum á Padlett-vegg þar sem ferlið að gera pappamassaverk með dagblöðum og ýmiskonar afgangspappa er sýnt frá upphafi til enda og er hlekkur hér. Þar inni er sjálfsmatsblað sem nemendur unnu samhliða pappamassaverkinu til að fá útskýringar og vörður fyrir leið að pappamassagerðinni. Nemendur unnu sínar eigin hugmyndir fyrst með teikningu og svo í mótun með fjölbreyttu efni t.d. pappa, álpappír, dagblaðapappír o.fl. Nemendur sögðu allir frá sínu verki og útbjuggu hugmynd á bak við það áður en þeir fóru í að móta verkið.


Málverkið er hugsað sem verkefni út frá sýningunni Einfaldlega einlæg - málverk Kötu saumakonu. Þar sem verk hennar eru nemendum innblástur við verkefnavinnuna og nemendur fá tækifæri til þess að skoða betur verk hennar og velja sér viðfangsefni út frá innblæstri. Þá geta nemendur valið hvort að þeir vinni verk sem er innimynd eða útimynd þar sem Katrín Jósepsdóttir málaði bæði, mikið af portrett myndum og eins landslag.

Unnið er út frá því að nemendur vinni með bakgrunn, miðrými og forgrunn í málverkinu hvort sem myndin er innimynd eða landslagsmynd, vinni með litasamsetningar og litablöndun ásamt því að lögð er áhersla á að pensilfarið sé mjúkt og blöndunin eins og er áberandi í myndum Kötu.




Með hreyfimyndum er verið að vinna með teikningu inn í málverkið með forriti í ipad sem kallast Procreate og klippt pappamassaverkið inn í hreyfimyndina með Green screen tækni með aðstoð forritana Keynote og Imovie eða Capcut. Nemendur fengu stafrænar og gagnvirkar leiðbeiningar með verkefninu sem má sjá hér.


Námsmat á verkefni

Við gerð á verkefninu upphaflega var við námsmat nemandans er hugsað til þriggja námsfaga Aðalnámskrár grunnskóla (2011/2013), sjónlistir/myndmennt, samfélagsfræði og upplýsingatækni. Hæfniviðmið er haft til hliðsjónar við skipulag námsefnis og samstarfsins sem snúa að þessum námsfögum og námsmatið hverju sinni gert sýnilegt nemendum með því að upplýsa nemendur um tilgang heimsókna, verkefna, verkefna úrvinnslu og umræðna og skrá námsmat með skipulögðum hætti varðandi allt ferli þróunarverkefnisins. Sett verður upp námsmats tafla fyrir alla aðila sem koma að samstarfinu þar sem nemandinn metur hæfni sína og verkefnin með sjálfsmati við hvern hluta með tilliti til áframhaldandi þróunar, kennari metur hæfniviðmið nemanda og ígrundar og metur verkefnið/samstarfið við safnið og safnakennari metur og ígrundar samstarfið og heimsóknir með í huga að þróa samstarfið til betri vegar.


Hæfniviðmið í sjónlistum að nemandi geti:

  • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,

  • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,

  • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,

  • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu,

  • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni,

  • fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur,

  • gert grein fyrir og fjallað um ýmsar stefnur myndlistar með því að bera saman stíla og tímabil tiltekinna verka og sett þau í það menningarlega samhengi sem þau voru sköpuð,

  • greint, borið saman og metið aðferðir við gerð margskonar listaverka.


Í samfélagsfræði er unnið að hæfniviðmiðum að nemandi:

  • fylgt ferli orsaka og afleiðinga af gerðum manna og bent á leiðir til úrbóta,

  • greint samhengi heimabyggðar við umhverfi, sögu, menningu og félagsstarf,

  • aflað sér, metið og hagnýtt upplýsingar um menningar- og samfélagsmálefni í margvíslegum gögnum og miðlum.

  • notað mikilvæg hugtök til að fjalla um menningar- og samfélagsmálefni,

  • gert sér grein fyrir nýtingu og vernd auðlinda og umhverfis, hvernig hver einstaklingur getur lagt sitt af mörkum til verndar,

  • rætt á upplýstan hátt um tímabil, atburði og persónur, sem vísað er til í þjóðfélagsumræðu,

  • metið heimildir og ólík sjónarhorn í umfjöllun um sögu og samtíð,

  • greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum,

  • gert grein fyrir hlutverki nokkurra helstu stofnana samfélagsins.


Í upplýsingatækni er unnið að hæfniviðmiði að nemandi geti:

  • nýtt hugbúnað/forrit við myndvinnslu, gerð stuttmynda og hljóð- og tónvinnslu,

  • geti nýtt rafrænt og gagnvirkt námsefni á fjölbreyttan hátt. 


Miðað er við að nemendur meti námshæfni sína með aðstoð kennara í samtali, þá er gert ráð fyrir að kennari gangi á milli og spjalli við hvern og einn nemanda og fylli út með nemandanum lista. Hæfniviðmiðin eru metin sem hæfni ekki náð, þarfnast þjálfunar, á góðri leið, hæfni náð og framúrskarandi. Svo vinna nemendur sjálfsmatsblað sjálfstætt með verkefnum. 


Matstafla til viðmiðunar fyrir mat á námi nemenda, samstarfi og verkefnavinnu:

Námsmat nemenda

Mat kennara

Mat safnkennara

Sjónlistir

  • Getur notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun.

  • Getur nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun.

  • Getur unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk.

  • Getur byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu.

  • Getur beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni.

  • Getur fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur.

  • Getur gert grein fyrir og fjallað um ýmsar stefnur myndlistar með því að bera saman stíla og tímabil tiltekinna verka og sett þau í það menningarlega samhengi sem þau voru sköpuð.

  • Getur greint, borið saman og metið aðferðir við gerð margskonar listaverka.

Spurningar til grundvallar á mati á samstarfinu - ígrundun:


Hvernig gekk heimsókn í skólann?


Hvað vakti áhuga nemenda og hvernig spurningar komu upp?

Hvað þarf að gera betur?


Hvernig tókst til í heimsókn á safnið? (svarað spurningum við allar heimsóknir)


Hentaði hópastærð? Þarf að breyta hópastærð?


Hvað vakti áhuga nemenda?


Hvað þarf að gera betur?


Hvernig tókst verkefnavinna?


Hvað gekk vel?

Hvað gekk illa?


Hvað vakti áhuga nemenda?


Hvernig tókst nemendum að vinna með þema?


Hvernig var hópastærðin í verkefnavinnu?


Var vinnuálagið á nemendur hæfilegt við verkefnavinnu?


Var vinnuálag á kennara hæfilegt við undirbúning, skipulag og verkefnavinnu?


Hvernig gekk sýning á Barnamenningarhátíð?


Hentaði fjöldi nemenda fyrir opnun?


Var mæting hjá foreldrum?


Hvað væri hægt að gera öðruvísi?

Spurningar til grundvallar á mati á samstarfinu - ígrundun:


Hvernig gekk heimsókn í skólann?


Hvað vakti áhuga nemenda?


Hvað þarf að gera betur?


Hvernig tókst til í heimsókn á safnið? (svarað spurningum við allar heimsóknir)


Hentaði hópastærð? Þarf að breyta hópastærð?


Hvað vakti áhuga nemenda?


Hvað þarf að gera betur?


Hvernig gekk sýning á Barnamenningarhátíð?


Hentaði fjöldi nemenda fyrir opnun? Með tilliti til nemenda og foreldra.


Hvað væri hægt að gera öðruvísi?


Upplýsinga- og tæknimennt:

  • Unnið með hugbúnað við gerð stuttmynda í hreyfimyndagerð.

  • Getur nýtt rafrænt og gagnvirkt námsefni á fjölbreyttan hátt. 

Samfélagsfræði:

  • Með umræðum um heimsmarkmið fylgt ferli orsaka og afleiðinga af gerðum manna og bent á leiðir til úrbóta.

  • Geta gert sér grein fyrir nýtingu og vernd auðlinda og umhverfis, hvernig hver einstaklingur getur lagt sitt af mörkum til verndar.

  • Metið og hagnýtt upplýsingar um menningar- og samfélagsmálefni í tengslum við sýningar á Listasafninu. 

  • Notað mikilvæg hugtök sem tengjast starfsemi Listasafnsins og sýningum sem verða heimsóttar

  • Gert grein fyrir hlutverki Listasafnsins á Akureyri.

  • Geta rætt á upplýstan hátt um tímabil, atburði og persónur, í tengslum við heimsóknir á Listasafnið.

  • greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum.

  • metið heimildir og ólík sjónarhorn í umfjöllun um sögu og samtíð.




Rammi fyrir heimsóknir og verkefnavinnu

Upphaflega tímataflan. Við bættist listasmiðja með listamanni, auk þess sem við sameinuðum þriðju og fjórðu heimsókn í eina með hóp. Þannig að heimsóknirnar urðu fimm talsins. Við horfðum til verkefnisins Hugmyndahattsins, sem unnið var nýverið af Jóhönnu Bergmann, þegar við settum saman þetta verkefni.

Heimsókn/ Vinna

dags.+tími

Tilgangur heimsóknar/vinnu  - úrvinnsla.

Þættir innan Hugmyndahattsins

1. heimsókn - Fyrsta vika skólans. 40 mínútur

Starfsemi safnsins kynnt - Safnkennari kemur í heimsókn í skólann og kynnir safnið, starfsemina og starfssvið safnsins. Undirbúningur fyrir samstarf vetrarins og kynning á safninu. 

Safnið kemur í skólann

2. heimsókn á Listasafnið. Vikan 18.-22. september. 50 mínútur í tveimur hópum. 

Afmæli - Samsýning safnsins með 23 listamönnum- Hitt listamann á safninu sem segir frá sínu verki á sýningunni. - Þuríður Helga Kristjánsdóttir. 

Unnið úr heimsókninni á safninu - með leik í tengslum við sýninguna.

Heimsókn á safnið


Samstarf við þriðja aðila. 


Þema

3. heimsókn -  hver hópur (11-14 nem.) kemur í lotu hjá sjónlistakennara

Einfaldlega einlægt - málverk Kötu saumakonu. Heimsókn á sýningu í minni hópum. 

Endurteknar heimsóknir


Þema

4. heimsókn - í minni hópum (11-14 nem.) Janúar - mars. 

Uppsetning sýningar. Nemendur fá að sjá geymslur safnsins og starfið á bak við tjöldin þar sem verið er að setja upp sýningu. 

Endurteknar heimsóknir


Á bak við tjöldin

5. heimsókn - apríl - hópurinn allur og foreldrar. 

Opnun sýningar á Barnamenningarhátíð - lokahnykkur í samstarfi vetrarins. Nemendur og foreldrar velkomnir. 

Sýning


Menningarhátíð

Verkefni hjá sjónlistakennara - unnið samhliða samstarfi í lotum hjá sjónlistakennara

Stafræn miðlun verkefna og áframhaldandi vinna hjá sjónlistakennara. 

Listsköpun sem er einstaklingsverkefni, samvinnuverkefni og stafrænt verkefni, tækni bætt í verkefnið.

Stafræn miðlun


Auka vinkill


Sköpun


Á sýningu nemenda á safninu var pappamassaverkið og klippimyndin sem unnin var á listasafninu. Opnunin vakti heilmikla lukku hjá nemendum þar sem þeim var boðið upp á popp og safa ásamt því að einstaklega vel var tekið á móti þeim með ræðuhöldum við opnun og haldið verkum þeirra hátt á lofti. Hér má sjá umfjöllun listasafnsins á Instagram reikningi þeirra.

Ég var í einstakri stöðu að geta unnið að þessu verkefni með Heiðu fræðslufulltrúa safnsins og við nýttum það í botn og ég er mjög þakklát að þetta skuli hafa tekist svona vel.

Sérstakar þakkir til safnsins og Heiðu fyrir samstarfið.

26 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page