top of page

Microkiln - leirbrennsla í örbylgjuofni

Updated: Sep 23, 2023


Í sumar er ég búin að gera tilraunir með brennslu í Microkiln, litlum leirbrennsluofni sem settur er í örbylgjuofn. Þetta er búið að vera skemmtilegt ferli að læra og ég búin að gera margar tilraunir með mismunandi leir, bæði hrá- og gljábrennslu. Auk þess hef ég gert þó nokkuð af tilraunum með Raku brennslu með þessa litlu hluti sem ég hef búið til. Ég keypti mér rauðan jarðleir og ljósan K112 (svokallaðan skólaleir) og lágbrennsluglerunga frá Amaco. Teachers Pallet's frá Amaco eru t.d. allir lágbrennsluglerungar og hef ég einungis prufað pensilglerunga í þessu ferli í sumar.

Ég er með minni og stærri gerðina af microkiln og pantaði þá í gegnum Aliexpress. Ég er með stóra gerð af örbylgjuofni sem er um 800W.


Þessir litlu pottar fyrir örbylgjuofn eru hannaðir fyrir glerbræðslu en henta einnig til að brenna leir. Mér finnst stærri gerðin henta betur fyrir hrábrennslu og minni gerðin betri fyrir gljábrennslu. Stærri er lengur að hitna og því eru hlutirnir lengur í hitun fyrir hrábrennsluna, sem er gott fyrir ferlið og minni líkur á að hlutirnir springi eða brotni.


Mikilvægt er að skoða vel allar leiðbeiningar og upplýsingar sem hægt er að finna varðandi þessa litlu potta og örbylgjuofna.


Ég heillaðist mjög af því að nota Raku-brennsluaðferðina sem þýðir það að þegar búið er að hrábrenna og farið er að gljábrenna er hluturinn tekinn úr pottinum glóandi heitur og settur í sag/dagblöð eða annað sem brennur þegar hann er lagður í þetta og snöggkældur í köldu vatni. Mikilvægt að hafa pott eða annað sem þolir eld (stál eða annað álíka). Ég á eftir að gera fleiri tilraunir með þetta og er m.a. búin að tína mikið af fjöðrum sem mig langar að prufa við tækifæri á réttu hlutina.


Það sem ég lærði á þessu ferli eru nokkur atriði sem skipta máli í ferlinu er:

  1. Mjög mikilvægt öryggisatriði að hafa örbylgjuofninn á mjög vel loftræstu rými og þar sem hægt er að opna alveg út, ég nota bílskúrinn og hef stóru dyrnar opnar.

  2. Það er best að vinna með jarðleir eða lágbrennsluleir (u.þ.b.900-1000°) og hafa jafna þykkt á því sem verið er að búa til (frekar þynnri hluti).

  3. Leirinn þarf að vera algjörlega þurr, best að þurrka hann í um sólarhring eða meira á hefðbundinn hátt og næst í bakaraofni í um 30+ mínútur á 50°c rétt áður en á að hrábrenna í litla örbylgjupottinum. Ef það er minnsti raki í hlutnum þá springur hann með hvelli. Sama gildir með gljábrennslu, hlutirnir mega ekki hafa minnsta raka þá springa þeir eða brotna í ofninum.

  4. Þegar brenna á hluti í hrábrennslu er gott að byrja á 3 mínútum og bæta við 3 mínútum nokkrum sinnum. Í hrábrennslu þarf um 18-24 mínútur í stóra ofninum, í litla er það um 12-15 mínútur. Í gljábrennslu í litla ofninum um 6-12 mínútur til að fá hlutina glóandi. Örugglega mismunandi eftir örbylgjuofnum.

  5. Mjög sniðugt að setja hvern hlutinn af eftir öðrum í gljábrennslu, þá nýtir maður hitann. En ég komst að því að það er gott að kæla ofninn aðeins áður en næsti hlutur er settur inn því þeir eiga það til að springa ef þeir eru settir í ofninn glóandi.

  6. Hanskar sem þola eld og hita mikilvægir ásamt góðum grilltöngum eða öðrum sem grípa um hlutina.

  7. Mikilvægt að hafa vatn í skál nálægt og eldþolið undirlag til að leggja litla ofninn frá sér. Ég nota hellur.


Mjög mikið af efni er til á Youtube og internetinu um þessa ofna og leitarorðin Microkiln ceramics eru sniðug eða Microwave pottery kiln. Mæli með að skoða vel áður en farið er í að nota þetta og vera með öll öryggisatriði 100%.

Uppsetningin hjá mér fyrir Raku-brennsluna er þessi.



Ég er búin að vera að skrásetja ferlið hjá mér með Instagram reikningi sem ég stofnaði sérstaklega til að skoða þetta. @rockspringspottery (Rockspring tilvísun í Berglind)

Tilraunirnar mínar í sumar hafa að mestu snúist um Raku eins og ég nefni hér ofar en ég er líka búin að vera að prufa að gylla hlutina með "gold leafing". Sem er gyllt álþynna sem er fest á með t.d. fljótandi lími eða Mod Podge, sem er einnig hægt að fá sem þolir að vera úti.

Hér eru nokkrar myndir og myndbönd af verkum með þessum aðferðum, allt eru þetta litlir hlutir, um 3-7 cm breiðir. Erfiðast var að brenna fuglana og töluvert margir sem brotnuðu í hrábrennsluferlinu, svarti liturinn á lundanum og lóunni kemur frá Raku brennslunni og kemur vegna eldsins sem myndast þegar hluturinn er settur í sagið.





44 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page