top of page

Mylluverkefni




Nemendur búa til leikmenn, leikborð, flétta band og lita og sauma poka undir spilið.

Unnið á stöðvum í vinnulotum. Mánudaga og fimmtudaga, 4 hópar og hver hópur fær 2x40 mín.



Nemendur hvattir til að nýta eigin hugmyndir við gerð leikmanna með pappírsleir/keramik og skreytinga á leikborðinu, litun á efni og skreytingar á efni og vali á garni í fléttu.

Orðaforði í tengslum við notkun saumavélar og notkun á saumavél:

Fótstig, fótur, flytjari, beint spor, saumavélanál, bakkspor.


Hæfniviðmið

· Að nemendur upplifi sköpunargleði við útfærslu eigin hugmynda

· Læri að hekla snúru, snúa band eða hnýta

· Þjálfist í að sauma beinan saum í saumavél

· Noti taumálun/þrykk til skreytingar

· Getur lagt mat á eigin verk

· Hefur kynnst ýmsum algengum verkfærum í smíðastofunni og notkun þeirra

· Getur gengið frá eftir vinnu sína


Önnur markmið frá kennara:

Að nemendur njóti þess að skapa og nýta eigin hugmyndir við sköpun á borðspili og læri grunnatriði í notkun saumavélar og kynnist tie dye.


Stöðvavinna


Fyrsta stöð: Tie dye

Nemendur lita efnisbút um 30x30 cm með fljótandi tie dye litum. Best er að hafa efnið rakt til að liturinn renni betur í efninu.

Skemmtilegt að láta nemendur brjóta saman efni eins og í byrjun á að gera gogg, þ.e. hornin inn í efnið og aftur og setja teygju utan um eins og utan um pakka þegar efnisbúturinn er kominn í lítinn ferning. Það er hægt að gera alls konar brot til að fá mismunandi útkomu.

Næsta skref er að lita efnisbútinn og mjög skemmtilegt að nota dropateljara til að nemendur nýti allan litinn sem best og sulli ekki niður. Snúa efninu við til að fá lit beggja vegna.

Nemendur taka efnisbútinn í sundur þurrka efnisbútinn með hárblásara og strauja yfir til að festa litinn í efninu.


Muna að láta nemendur vera í hlífðarfatnaði sem hlífir fötunum vel og með hanska.


Önnur stöð (þarf að vera á eftir fyrstu): Merkja og skreyta

Nemendur skrifa nafnið sitt á efnisbútinn með fatamerkipenna (þá er búið að merkja sitt verkefni) og þrykkja með textílmálningu (tauþrykkslitum) hendina sína fyrir ofan nafnið sitt. Mér fannst hentugra að hafa svamp til að setja litinn á hendina, þarf vel af lit til að hendin komi vel út.

Svo er hægt að nota allskyns og mismunandi þrykkliti og þrykkmót eða form til að skreyta efnið með tauþrykki.

Það er sniðugt að hafa nafnið neðarlega u.þ.b. 3 cm innan við brúnina og fyrir miðju á efninu og þrykkja hendina þar ofan við og skreytt með mynstri í kring.

Þriðja stöð: Leirmótun - leikmenn fyrir mylluna.

Nemendur móta leikmenn fyrir mylluna með jarðleir eða pappírsleir. Útbúa 9 litlar kúlur og skipta þeim í 4 eins mynstur og 5 eins mynstur. Sniðugt að nota tappa ofan af ónýtum tússlitum til þess að stimpla með.

Fjórða stöð: Band fyrir pokann.

Nemendur velja 6 þræði, sem eru um það bil 60 cm að lengd.

Mér finnst gott að búa til jafnlanga þræði sem eru settir saman í einn vöndul og bundið í miðju. Þá er hægt að draga einn og einn þráð úr auðveldlega.

Svo er bundið hnút og fléttað band. Svo er fléttað saman bandið, gott að binda hnút við endann og líma á borð með límbandi eða krækja með nælu við t.d. borð eða stól og flétta. Þegar börn eru að byrja að læra að flétta er gott að láta þau bara færa einn hluta af fléttunni í einu, t.d. þann sem er hægra megin fer alltaf yfir og undir og er þá kominn út í endann. Þannig ná þau taktinum og verða öruggari við það að átta sig á mynstri í ferlinu.

Fimmta stöð: Leikborðið Þá þurfa nemendur að pússa hliðar með sandpappír, merkja og mæla með reglustiku. Gott að nota fyrst blýant svo að hægt sé að stroka og lita svo yfir með svörtum túss/lit eða í öðrum lit. Muna að

merkja með nafni aftan á leikborðið. Þetta leikborð var 12x12 cm og því auðvelt að mæla og merkja 4 cm fyrir hverja línu við brúnina og strika á milli.


6. stöð: Útsaumur í pokann

Hægt er að sauma þræðispor, aftursting, kontorsting, lykkjuspor eða annað útsaumsspor í pokann áður en hann er saumaður saman í saumavél. Hjá yngri börnum er þræðispor tilvalið og ekki að taka að sér of mikinn útsaum, kannski bara í stafina, eða hring í kringum stafi eða nafnið sitt. Eldri bekkir (4. bekkur t.d.) ræður við aftursting og sumir við kontor eða lykkjuspor.


Annað sem er gott að hafa í huga:

Mikilvægt er þegar nemendur eru að sauma í fyrsta skipti á saumavél að hafa góða innlögn á saumavélina, að nemendur læri á tækni vélarinnar og heiti og tileinki sér orðaforðann. Tilvalið er að hafa 2-3 nemendur að fylgjast að í innlögn til að geta gefið góða leiðbeiningu og eftirfylgni. Gott er að hafa aðra nemendur í sjálfstýrandi stöðvum á meðan. Yngri bekkir t.d. 2. bekkur getur notað þræðispor til að sauma pokann saman.


Hér fyrir neðan er kennsluáætlun til að hlaða niður og prenta út.


mylla - kennsluáætlun
.pdf
Download PDF • 318KB



5 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page