Á haustdögum var trjáþema hjá 3. bekk og unnu nemendur hjá mér í tengslum við það þema verkefni sem heppnaðist mjög vel.
Nemendur gerðu endurnýtanlegan nestispoka eða samlokupoka.
Hægt er að nýta gamalt eða nýtt efni við gerð pokanna. Ég lét nemendur lita efni, með tie dye litunaraðferð, sem var nýtt í ytri hluta pokans og í innri hlutann nýttu nemendur vaxdúk/borðdúkaefni sem auðvelt er að þurrka af óhreinindi sem geta komið af nestinu.
Á efnið í ytri hlutann var notað fljótandi tie dye liti og tauþrykksliti í laufþrykk.
Nemendur í þessu verkefni voru að læra á saumavélina og gera fyrsta verkefni í saumavél og var upplagt að láta þau læra á saumavélina með því að sikksakka meðfram efni og læra að beygja og sauma sína eigin leið eftir efninu og festa um leið franska rennilásinn við lokið. Að endingu saumuðu nemendur saman efnið með broti af efninu umfram til þess að ná að loka pokanum. Í þessum saumaskap er gott að nota saumaklemmur í stað títiprjóna þar sem vaxdúkurinn er of þykkur fyrir títiprjónana og óhentugt er að gata hann.
Comments